Spennugjafinn sem bilaði um páskana

8. apríl 2004 - skírdagur

Netlaust var hjá mér alla páskana. Þetta byrjaði um klukkan 8 á skírdegi (08.04.2004) að spennugjafinn fyrir loftlínueininguna bilaði og datt netið út strax. Þessi vandræði hafa gerst áður hjá kunningja mínum upp í Breiðholti sem er á alveg eins tengingu auk þess sem það hafði gerst fyrir loftnetið sem að tekur á móti merkinu frá mínu loftneti hér heima. Fyrstu viðbrögðin voru að þetta voru tímabundin vandræði og myndu leysast sjálfkrafa. Þar sem ég hafði ekki séð neinar tilkynningar áður um að Lína.Net myndi hafa lokað um páskana, þá ákvað ég að bíða þangað til það nálgaðist opnunartíma. Eftir um 30 mínútur hringdi ég í númerið hjá Línu.Net og valdi möguleikann um tæknilega þjónustu eða bilanir. Þjónustudeild Skýrrs svaraði í símann og ég sagði frá vandræðum mínum og sögðu þeir að þeir hefðu fengið bréf frá Línu.Net um að verið var að breyta um routerstillingar um kl. 8 og að þetta myndi komast í sitt horf. Ég sagði þeim síðan að þetta væri örugglega ekki vandamálið hjá mér þar sem:
     a) Ekkert ljós væri á einingunni minni, sem þýddi að eitthvað væri ekki í lagi með hana.
     b) Ég gat ekki pingað neitt út fyrir heimilið mitt, jafnvel innan Línu.Net.
Það eina sem var gert var að þeir sendu tilkynningu um þetta til Línu.Net, sögðust ekki geta gert neitt annað, nema auðvitað að framkvæma útkall sem myndi þýða að ég þyrfti að borga heilar 4 klst í vinnu (samkvæmt verkalýðsfélögunum) auk þess var lögbundinn frídagur og orsakar að allar 4 klukkustundirnar reiknast sem yfirvinna. Venjulegi taxtinn hjá Icecom, verktaka Línu.Net er um 7 þúsund krónur á tímann í dagvinnu og ég var ekkert að fara að borga tugi þúsunda fyrir þetta. Ef ég hefði gert það, þá hefði ég orðið gjaldþrota. Náunginn hjá Skýrr sagðist annars ekkert getað lofað því að þetta yrði lagað fyrir Páska svo að ég var undir þeirri skoðun að það var mögulegt fyrir þá að laga þetta fyrir þann tíma og vonaði hið besta.

Síðar um daginn komst ég að því að þetta hafði gerst hjá kunningjanum mínum í Breiðholti auk þess rifjaði ég það upp að þetta hafði gerst á hinu loftnetinu og í báðum tilfellum var það spennugjafinn sem olli þessum vandræðum. Kunningi minn sagði mér að þeir hefðu bara komið með nýjan spennugjafa og allt síðan verið í lagi. Eftir símtalið ákvað ég að hringja í Skýrr til að láta bæta þessu við tilkynninguna og svaraði símanum eintaklingur sem var nýkominn á vakt. Eftir að hafa sagt honum að ég hafði hringt áður útaf þessu og leit hann þá á fyrri tilkynninguna og hann skyldi vandræði mín fullkomlega þar sem ég var að hýsa mjög mikilvægar þjónustur eins og tölvupóstþjón, nafnaþjón, vefsíður og svo framvegis og það er ekki skemmtilegt að vera netlaus yfir lengri tíma litið frá sjónarhorni einstaklings. Hann sagði mér síðan að það sé mögulegt að starfsmenn Línu.Net líti yfir tölvupóstinn sinn á frídögum og að þeir geri eitthvað í þessu fyrir mig en við ákváðum að til að auka líkurnar á því að eitthvað sé gert í þessu með því að fylla út aðra tilkynningu þar sem lagt var áherslu á mikilvægu þjónusturnar sem ég hýsi og hve einfalt sé að leysa þetta vandamál með öðrum spennugjafa. Þar að auki heimtaði ég að fá varaspennugjafa ásamt þeim sem ég fengi ef þetta skyldi gerast aftur.

9. apríl 2004 - föstudagurinn langi (já, svo sannarlega)

Næsti dagur kom upp (föstudagurinn langi) og vildi ég reyna að minnka skaðann með því að færa helstu nafnaþjónafærslur yfir á aðra nafnaþjóna og bað því Davíð skólafélaga minn um að leyfa mér að nota aðstöðuna hjá honum til að framkvæma þetta. Ég ætlaði að nota nafnaþjóninn hans og líka tölvu félaga míns sem er hýst upp í Bunker sem að hýsir líka vefsíðurnar fyrir hýsingarþjónustuna. Ég reyni síðan að tengjast við vélina með ssh en næ engu sambandi, síðan reyni ég að fara á einhverja vefsíðu sem á að vera hýst á vélinni en næ engu sambandi heldur. Hringi síðan í eiganda vélarinnar og spyr hvort það séu einhver vandræði og hann segir að örgjörvinn sé ónýtur og þurfi að skipta en hann vissi ekki hvenær hann gæti gert eitthvað í því. Þar fór áætlunin mín þar sem ég hafði bara einn nafnaþjón sem ég gat notað en Isnic heimtar tvo virka nafnaþjóna svo að ég geti fært yfir. Fyrst ég gat ekki gert neitt, þá fór ég heim og byrjaði að hringja í fólk til að spyrja hvort það ætti svona spennugjafa en þar sem "klóin" á bilaða spennugjafanum er svo óvenjuleg, þá átti enginn eins stykki og ég þurfti. Kunningi minn í Breiðholti hafði sagt mér á fimmtudaginn að ef hann hefði varaspennugjafa, þá hefði hann lánað mér hann hiklaust. Um kvöldið hringir Davíð í mig og býður mér að hýsa vefsíðurnar á Counter-Strike servernum sem hann sér um út í Bunker og sagðist ég ætla að hugsa út í málið.

10. apríl 2004 - "laugardagurinn langi"

Það er kominn laugardagur. Enginn hefur haft samband frá internetþjónustunni varðandi spennugjafann en það hefur fólk haft samband við mig útaf sambandsleysinu við heimasíðurnar þeirra og ég skýri þeim frá vandræðunum mínum, það vorkenndu mér flestir. Davíð hringir í mig og við ræðum um hýsinguna upp í Bunker og ákvað ég að slá til. Jóhannes, sá sem á vélina sem ég hýsti á áður, hafði tekið diskinn sem ég hafði í vélinni hans upp í Bunker heim til sín svo að ég og Davíð fórum heim til hans og sóttum hann. Hann lánaði mér líka kerfisdiskinn til að afrita helstu stillingar yfir og svona. Síðan var farið upp í Bunker og settum við kerfisdiskinn í og afrituðum það helsta yfir, tókum hann síðan út og settum hýsingardiskinn inn og "mount-uðum" hann. Eftir það fórum við heim til Davíð þar sem við eyddum örugglega 3-4 klst í að stilla allt eins og það átti að vera, auk þess að laga það sem var ekki í lagi. Klukkan var næstum því 8 að kvöldi og loksins var það helsta komið í gang. Hann skutlaði mér heim og ég þakkaði honum kærlega fyrir hjálpina. Ég hafði síðan ekkert samband við internetþjónustuna því að ástandið var örugglega ekkert búið að breytast hjá þeim.

11. apríl 2004 - páskadagur

4. dagur netleysis (þekktur sem páskadagur). Hef verulegar áhyggjur af tölvupóstinum sem skilar sér ekki útaf þessu vandamáli, var að spá í að heimta einhverjar bætur frá Línu.Net á þriðjudaginn því ég á varla að þurfa að borga fyrir internetið þá dagana sem ég gat ekki notað það. Seinustu vikurnar var nokkuð mikið niðurhal frá útlöndum, ef ég sé að það var internetumferð þessa dagana sem að netið var niðri, þá ætti ég að geta heimtað að þeir rannsaki málið og fá til baka alla fjárhæðarnar sem hefur farið í óumbeðna niðurhalið sem hefur verið að bætast inn á reikninginn. Engir viðskiptavinir hýsingarþjónustunnar hafa hringt í mig enn þá svo að ég geri ráð fyrir að breytingarnar sem að ég og Davíð framkvæmdum í gær hafi virkað. Hafði samband við Skýrr, sami náunginn tók við símtalinu og því seinna á fimmtudeginum og sendi hann sömu tilkynninguna aftur, get ekki sagt annað en að hann sé mjög hjálpsamur þótt ég geti ekki sagt að Lína.Net sé það...

12. apríl 2004 - annar í páskum

Klukkan er um 17:30 á öðrum í Páskum, engin merki um að Lína.Net sé að bregðast við ástandinu mínu. Hef komist að því að power ljósið á einingunni sé bara grænt á nóttunni en slokknar á því þegar ég vakna aftur, hef ekki hugmynd af hverju. Netið virkar samt ekki á meðan. Hef verið að ímynda mér hvernig tilfinningin um að netið sé komið aftur sé þegar þeir laga þetta á morgun. Er að spá hvort að fólk sé byrjað að hafa áhyggjur af mér þar sem ég er vanalega á netinu alla daga og hvort það séu komnir einhverjir orðrómar um örlög mín. Fékk símtal í gær um að ekki var hægt að senda neitt á nýju vélina, örugglega vandamál með notendaréttindi, stillingarnar voru greinilega ekki fullkomnar, en vefirnir voru uppi. Ætla að gera áætlanir um að dreifa nafnaþjónunum enn þá betur á svo að nafnafærslurnar eigi mjög erfitt með að detta út ef eitthvað svona gerist aftur.

13. apríl 2004

Þriðjudagurinn er loksins kominn og klukkan er um 8 að morgni. Ég er búinn að vera netlaus núna í um 120 klukkustundir (5 sólarhringa) og netið á að koma aftur í dag, nema þeim takist að klúðra þessu. Ætla að prófa að bíða og sjá hvort að þeir hafi samband við mig frá opnun klukkan 9 og þangað til klukkan 10, annars hringi ég þangað og skamma fólkið þarna ærlega þar sem það myndi hafa nægan tíma til að lesa 2 tilkynningar sem bárust fyrir helgi, og báðar tilkynna algert netleysi viðskiptavinar. Ætla að birta þennan texta á netinu um leið ég kemst á það, til að útskýra fyrir fólkinu allt það erfiði sem ég er búinn að lenda í undanfarna daga, sparar líka endurtekningarnar. Reiknaði annars út að ég borga um 459 kr. í fastagjald á dag fyrir internetið, ætla þá að heimta einhverja endurgreiðslu fyrir allan tímann sem ég komst ekkert á netið. Hringdi í þjónustudeildina rétt fyrir klukkan 10 og lét þá vita að Lína.Net hafði ekki samband við mig, þrátt fyrir alvarleika bilunarinnar og ætlaði starfsmaðurinn að koma þessu áfram. Fékk nóg af biðinni um klukkan 10:30 og hafði beint samband við Línu.Net og vildu þeir að ég sótti nýrri gerð af tölvuspennugjafa en mér fannst það ósanngjarnt að ég yrði að sækja hann sjálfur upp í Garðabæ, svo að ég fæ hann sendan fyrir lok dagsins. Síðan var mér boðið upp á að kaupa varaspennugjafa og fá varasamband ef þetta skildi gerast aftur...en ég ætlaði að sjá til með það. Bað líka um að settur yrði svona spennugjafi á hitt loftnetið og ætlaði hann að gera það. Var líka góður við kunningja minn í Breiðholtinu og bað þá um að láta hann fá svona tölvuspennugjafa á bæði loftnetin svo að hann myndi ekki lenda í þessu sama, hann ætlaði að athuga málið. Komst líka að því að það var 2-3 megabæta umferð á dag yfir tímabilið og sagði hann að þetta væri eðlilegt þegar maður hefur margar IP tölur.

Maður frá Línu.Net kemur með spennugjafa um klukkan 12, var því miður ekki með eins tengi og hinn. Hann ætlar að koma aftur, lét hann fá ónýta spennugjafann svo hann kæmi örugglega með spennugjafa sem ég gæti stungið í samband við eininguna. Klukkan 14:35 kom hann aftur og með lausn sem virkaði, það var 300W power supply fyrir venjulega tölvu og síðan tengt í eininguna útfrá því. Eftir að það var búið að sjá að þetta virkaði, þá þakkaði ég honum fyrir hjálpina og kvaddi hann.

Tekið er við athugasemdum og ýmsu öðru varðandi textann í tölvupóstfangið svavarl@stuff.is